Enn um ungt og greint fólk

Ég var nýlega spurð að því hvað fær ungt og sæmilega greint fólk til þess að freista þess að hasla sér völl í pólitík. Ástæður þeirra sem það reyna eru vafalítið margar og um þær ætla ég ekki að fjölyrða hér. Hins vegar endurspeglast í spurningunni ákveðið viðhorf til stjórnmála sem ætti vitaskuld ekki að tíðkast.

Spurningin felur nefnilega í sér að pólitík sé ekki starfsvettvangur fyrir heiðarlegt og vel gefið hæfileikafólk heldur forarpyttur sem öllu venjulegu fólk hrýs hugur við að kasta sér í.

Kannski er það vegna þess að hegðun stjórnmálamanna endurspeglar ekki alltaf þau gildi sem við viljum sjá í okkar kjörnu fulltrúum. En ástæðan gæti líka verði sú að í stöðgri baráttu um atkvæði hefur það oft reynst vel að útmála andstæðinginn sem hálfvita sem þekki ekki muninn á þorski og ýsu.

Samræður sem grundvallast á skipulegri framsetningu raka og skoðanamyndum byggð á traustum grunni hugsjóna og staðreynda virðast sjaldan tíðkast í stjórnmálum samtímans. Þeir tímar sem við lifum nú hafa þó fært okkur heim sannindin að sú aðferðafræði er farsælust samfélagi sem ætlar sér að ná árangri.

Hróp og köll í fjölmiðlum, eltingarleikur við skoðanakannanir og skollaleikur við andstæðingana leiðir aðeins til þess að málefnin falla í skuggann. Að hafa metnað fyrir persónulegum frama hafa orðið viðurkennd viðmið í stjórnmálum.

Það er miður. Stjórnmál hljóta allaf að snúast um málefni. Samfélagið krefst þess að kjörnir fulltrúar ræði málefni sem það snertir með þeim hætti að allir geti haft sóma af og leggi persónulegan metnað sinn og vonir um vegtyllur til hliðar fyrir hagsmuni samfélagsins.

Comments

comments

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink. Both comments and trackbacks are currently closed.