Umræður um tónlistarskólana í borgarstjórn

Forseti, ágætu borgarbúar og borgarfulltrúar.
Undanfarið hefur mér verið hugsað um sögu sem ég heyrði eitt sinn. Ég veit svo sem ekki hvort hún er sönn eða hvort ég hafi hana rétt eftir. Engu að síður er hún góð og mig langar að deila henni með ykkur.

Fyrir mörgum áratugum síðan mætti stjörnuáhugamaður nokkur, sem skuldaði allmikið meðlag, á skrifstofu borgarstjóra og bar sig aumlega. Taldi hann Reykjavíkurborg ganga fullhart að sér í innheimtu meðlagsskuldar og lýsti því yfir að það hamlaði honum mikið við hans helsta áhugamál, stjörnuskoðun, sem væri ekki alveg laus við útgjöld. Og eftir því sem stjörnuáhugamaðurinn rakti raunir sínar og barmaði sér, seig brún borgarstjóra í takt við barlóminn. Að lokum gat borgarstjóri ekki setið á sér og  svaraði málaleitan stjörnuáhugamannsins á þessa leið: „Vinur minn. Fyrst hugsar maður um börnin sín og svo horfir maður á stjörnurnar“.

Þessi saga þykir mér afar viðeigandi í dag. Hún fjallar nefnilega um forgangsröðun. Hún minnir okkur á hvað skiptir mestu máli. Og þó nánasta umhverfi okkar skiptir miklu máli og allt það sem er áþreifanlegt og blasir við okkur frá degi til dags þá eru innviðir samfélagsins, þeir sem margir taka ekki eftir fyrr en þeir bresta, mikilvægari.  Og nú hriktir í stoðum. Það á að skera niður í öllu menntakerfinu; í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og í tónlistarskólum. Það þarf enginn að segja mér að niðurskurðurinn bitni ekki á innihaldi náms og kennslu barna í öllum greinum og þá  mest í valgreinum: list-, verk- og tónlistarnámi.

Í málefnum tónlistarskólanna, rétt eins og leikskólanna og grunnskólanna, virðist  engin lína lögð. Ráðist er í umfangsmiklar aðgerðir og rennt blint í sjóinn. Nálgunin virðist með öllu óábyrg og tilviljunarkennd. Það væri hægt að halda því fram að sumar ákvarðanir sem teknar eru um viðkvæmustu málaflokkana, séu teknar á methraða og í hugsunarleysi. Slíkar ákvarðanatökur hafa  aldrei skilað góðu starfi. Lækkun fjárframlaga til tónlistarskólanna um 163 milljónir er birtingarmynd þess konar ákvarðana og mikil afturför. Því spyr ég formann menntaráðs, Oddnýju Sturludóttur, er hægt að skera fjárframlögin þetta mikið niður án þess að víkja sér undan lögboðnum skyldum sveitarfélagsins? Eins er ég forvitin um afstöðu meirihlutans til tónlistarmenntunar, því hún virðist nokkuð á reiki.

Og ég virðist ekki vera sú eina sem veltir henni fyrir sér. Tónlistarkennarar vilja líka fá svör við áleitnum spurningum. Einn þeirra er Ingunn Jónsdóttir. Hún veltir fyrir sér í pistli sínum á Pressunni hvað hafi breyst í afstöðu borgarfulltrúans Oddnýjar Sturludóttur til tónlistarskóla eftir að hún skrifaði bloggfærslu í tengslum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í upprunalegum drögum átti að ganga ansi nærri tónlistarskólum í Reykjavík. Þeir fá framlög frá Reykjavíkurborg sem eingöngu fer í launalið tónlistarskólanna. Húsnæði þeirra og annar rekstur er algjörlega á þeirra vegum. Það er skemmst frá því að segja að eftir hávær mótmæli okkar fólks í menntaráði var ákveðið að draga í land og láta niðurskurð til tónlistarskóla vera á pari við niðurskurð til íþróttafélaga. Enda ekki annað sanngjarnt”. Tilvitnun lýkur.

Ég tek undir orð Ingunnar Jónsdóttur að áhugavert væri að heyra rök hennar fyrir breyttri skoðun á málinu.

Það er vandséð hvernig Reykjavíkurborg hyggst skera niður fjárframlög í tónlistarskólum án þess að það bitni á tækifærum nemenda til að stunda tónlistarnám. Aðstöðumunur getur myndast og nemendur geta þurft frá að hverfa. Með lengingu skóladagsins á grunnskólastigi gerðu margir sér vonir um að auknum tíma yrði varið til kennslu í list- og verkgreinum, eins og öll umræða hafði miðast við, en því miður hefur það ekki orðið raunin. Aukinn kennslutími nemenda hefur nánast allur farið í bóklegar námsgreinar en hlutur list- og verkgreina hefur sáralítið breyst. Í stað þess að standa við kosningaloforð og fögur fyrirheit um samfellu skóladags og fjölbreytni í skólastarfi hefur meirihlutinn í borginni ákveðið að láta efnahagsástandið bitna enn frekar á börnum og ungmennum. Nú þegar hefur tónlistarmenntun dregist saman. Hún er nánast horfin úr efri bekkjum grunnskóla og starfsemi t.d. skólakóra hefur víða lagst af.

Ábyrgð Reykjavíkurborgar er mikil og borgin hefur sérstöðu hvað varðar tónlistarfræðslu í landinu. Hér hefur myndast kjarni framhalds- og háskólanáms í ýmsum tónlistargreinum. Það er að mörgu að hyggja í málefnum tónlistarfræðslu í Reykjavík og horfa þarf til allra þriggja meginþáttanna: Tónlistarkennslu í grunnskólum, starfsemi tónlistarskólanna og háskólamenntunar á sviði tónlistar, þar með talinnar menntunar tónlistarkennara og endurnýjunar í stéttinni.

Það á vitaskuld að vera sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að skapa skilyrði til að öll börn og ungmenni sem þess óska eigi þess kost að leggja stund á tónlistarnám við hæfi. Tónlistarnám er hluti af þeirri skyldu samfélags að sjá til þess að börn og ungmenni geti lært það sem hugur þeirra stendur til. Það er verðugt keppikefli, þegar til framtíðar er litið, að allir grunnskólanemar eigi þess kost að njóta grunnnáms í tónlist. En eitthvað virðist þetta hafa skolast til í framkvæmd og með niðurskurðinum fjarlægjumst við menntapólitísk markmið enn frekar.

Flestum er augljóst miklvægi tónmennta og tónlistar í uppeldi barna og unglinga. Tónlistarnám hefur sýnt sig að auka færni barna í öðrum óskyldum kennslugreinum. Eins geta börn, sem eiga erfitt í bóklegu námi, blómstrað í list- og verknámi. Kórar, skólahljómsveitir, dans og myndlist reynir jafnt á rökhugsun, ímyndunarafl, samstarf, verkkunnáttu og fleira. Tónlistarnám barna hefur heillavænleg áhrif á menningarlíf þjóðarinnar.

Í því samhengi getum við rifjað upp alla þá íslensku listamenn sem hafa gert garðinn frægan úti í heimi og glatt okkur hér heima með list sinni. Þeir fæddust ekki með þá kunnáttu og þekkingu heldur þroskuðu listgáfur sínar með m.a. námi.

Við getum líka litið á krónur og aura. Skömmu fyrir jól voru kynntar niðurstöður nýrrar rannsóknar á hagrænum umsvifum skapandi greina í íslensku atvinnulífi. Niðurstöðurnar sýndu ótvírætt að skapandi greinar eru ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar sem um 6% alls vinnuafls landsins starfaði við. Árið 2009 var virðisaukaskyld velta 191 milljarður króna, þar af 165 milljarðar utan opinbera geirans, og meiri en við byggingarstarfsemi og málmframleiðslu.  Störf við skapandi greinar voru 9.400.

Þessi umræða ætti ekki að koma Samfylkingunni og Besta flokknum spánskt fyrir sjónir. Samfylkingin hefur t.d. japlað á mikilvægi þess að skapa störf. Hvað með að halda líka í þær stöður sem nú þegar eru starfandi?

Mér virðist frekar sem meirihlutinn grafi undan grunnstoð atvinnugreinarinnar með því að skera niður mannauð tónlistarskólanna. Holur hljómur hefur nú hlaupið í hugtökin gæði, fjölbreytni, faglegt starf og jafnrétti til náms sem hrjóta svo oft af vörum stjórnmálamanna.  Meirihlutinn í borginni – sem hefur talað fyrir nýjum og skapandi áherslum – fellur í pytt ófrumlegra lausna sem beinlínis hamla  sköpun.
Nú hyggst ríkið verja fé til rannsóknar á því hvernig stoðkerfi atvinnulífsins getur betur mætt þörfum skapandi greina og stutt þær til enn frekari verðmætasköpunar og útflutnings. Borgin virðist þvert á móti ætla að leggja sitt af mörkum til að draga úr möguleikum á slíkri verðmætasköpun með því að kyrkja listagróðurinn um leið og hann skýtur fyrstu frjóöngunum. Eða ætlast hún kannski til að ríkið komi hlaupandi og bjargi sprettunni?

Og kannski stranda málefni tónlistarskólanna einmitt á viðræðum ríkis og sveitarfélags og vangaveltum um hvenær ríkið eigi að koma inn og hvenær ekki. Nú veit ég til þess að mikill vilji er af hálfu Menntamálaráðuneytisins að leysa þennan vanda en eitthvað virðist Reykjavíkurborg treg í taumi. Einnig hefur mér fundist að meirihlutinn geri beinlínis ráð fyrir að ríkið taki yfir málaflokkinn þannig að útgjöld sveitarfélagsins snarminnka. Það þykja mér glannalegar væntingar. Þó ríkið hafi lýst sig reiðubúið til viðræðna þá er því einnig sniðinn þröngur stakkur.  Meirihlutinn verður að gera sér grein fyrir því að það er ekkert í hendi. Og á meðan málefni tónlistarskólanna eru óleyst getur Reykjavíkurborg ekki gert ráð fyrir fjármagni frá ríkinu og hagað sínum málum í samræmi við það. Einnig held ég að það sé heldur bjartsýnt að vona að niðurstaða  fáist áður en þingi lýkur í vor.

Það þarf að vanda vel til verka í þessum viðræðum því að mörgu er að hyggja. Það er skoðun okkar Vinstri grænna að hagur allra barna sé í fyrirrúmi. Eins er mikilvægt að huga að því að afburðanemendur í tónlist lendi ekki milli skips og bryggju.

Forseti
Mér finnst að umræðan hér í dag ætti frekar að snúast um hvernig við bætum starfsumhverfi skapandi greina og hvernig við nýtum þann mannauð sem býr í kennurum Reykjavíkurborgar – hvort sem þeir kenna tónlist, íslensku, dans eða upplýsinga- og tæknimennt. Ég fæ það á tilfinninguna að meirihluti menntaráðs lítur á kennarastéttina sem íþyngjandi og kostnaðarsaman óþarfa sem standi í vegi fyrir því að endar fjárhagsáætlunar náist saman. Reyndar finnst mér eins og þetta eigi við um menntakerfið í heild sinni.

Nú hef ég heyrt í viðtölum formann menntaráðs tala um að borgarfulltrúar væru einfaldlega ekki starfi sínu vaxnir ef þeir geta ekki beitt niðurskurðarhnífnum.  Ég segi – við erum einfaldlega ekki starfi okkar vaxin ef við leitum ekki allra leiða til að vernda og styrkja menntun barna okkar í stað þess að skera niður á mikilvægustu sviðum samfélagsins í málaflokkum þeirra, sem lægst hafa raddirnar og enn hafa ekki fengið kosningarétt.

Með niðurskurðinum núna fjarlægjumst við enn frekar markmiðin sem við höfum valið að setja okkur varðandi tónlistarkennslu og nám barna og ungmenna.

Og á þessum nótum lýk ég máli mínu hér í dag og ítreka: Fyrst hugsar maður um börnin sín – svo skoðar maður stjörnurnar.

Comments

comments

This entry was posted in Borgin, Menntun, Pólitík. Bookmark the permalink. Both comments and trackbacks are currently closed.