Samfélagið og við – ræða haldin á valfundi

Þessa ræðu flutti ég á valfundi Vinstri grænna þ. 15. febrúar þegar ég bauð mig fram í 1. sæti á lista. Fyrir ykkur sem ekki gátuð hlýtt – set ég hana hérmeð á Netið – svo allir geti lesið.

Kæru samherjar, félagar og vinir!

Þegar ég settist niður til að skrifa þessa ræðu fór hugurinn á flakk og einhverra hluta vegna fór ég að hugsa um Reykjavíkurmaraþonið. Í fyrsta og eina sinn sem ég tók þátt í því, var ég tíu ára, og þetta var í fyrsta sinn sem hlaupið var haldið. Ég og vinkona mín skráðum okkur í hlaupið og við héldum að þetta yrði nú lítið mál. Við vissum auðvitað ekkert um svona hlaup þannig að þær hlaupaleiðir sem voru í boði voru kannski ekki gerðar fyrir tíu ára skottur eins og okkur. Að því komst ég einhvers staðar í Laugardalnum. Ég réði ekkert við þetta og svo var ég líka búin að missa af vinkonu minni. Til allrar hamingju náði ég strætó og komst niður í bæ. Þar við marklínuna hitti ég síðan vinkonuna sigri hrósandi með verðlaunapeninginn sinn. Hún sagði mér að hún væri löngu komin í mark. Hún hefði nefnilega tekið leigubíl.

Og af hverju rifjaðist upp þessi saga núna? Jú – kannski vegna þess að í maraþoni lífsins upplifum við daglega að einhver kaupir sig fram fyrir aðra. Einhver er nógu fjáður til að borga sig fram fyrir þá sem bíða eftir læknisaðgerð;  annar er svo ríkur að hann fær að reisa lyfjaverksmiðju á viðkvæmu varplandi fugla, sá þriðji ofmetnast svo af auðnum að hann vill koma upp einkaskólum og setja á skólagjöld – svona til að breikka bilið enn frekar á milli þeirra sem njóta forréttinda og hinna sem berjast fyrir réttindum sínum. Þeir kalla allir eftir sérúrræðum fyrir efnameira fólk og halda að peningarnir gefi þeim rétt umfram alla aðra.

Og þannig á þetta ekki að vera.

Samfélag á ekki að vera eins og rekstur einhvers fyrirtækis sem hugsar um það eitt að hámarka veraldlega arðsemi sumra. Samfélagið er fyrst og fremst fólkið sem í því lifir og því þurfum við að hámarka velsæld og hamingju þess. Það þarf að skapa tækifæri og hvata fyrir fólk til að þroska hæfileika sína og öðlast lífsfyllingu. Og nú hljóma ég kannski eins og einhver sjálfshjálpargúru en kannski er pólitíkin dálítið þannig. Eða kannski eru það bara pólitísku framboðsræðurnar…

Pólitík snýst um fólk. Á hverjum degi taka stjórnmálamenn ákvarðanir sem hafa áhrif á okkur. Stundum til hins betra og stundum til hins verra. Við viljum hins vegar forðast þessar vondu ákvarðanir. Þær sem hygla hinum efnameiri, auka stéttaskiptinguna, fækka tækifærum okkar og skaða umhverfi okkar með mengun og óafturkræfum framkvæmdum hér og þar. Vondar ákvarðanir hefta okkur og halda okkur föstum í þeim þröngu römmum sem oft verða til í samfélagi manna.

Undanfarið hefur borið mikið á því sem ég kalla séð og heyrt pólitík – sem gengur meira út á yfirborðið heldur en raunverulega baráttu  fyrir betra samfélagi. Séð og heyrt pólitíkin fer fram í fjölmiðlum. Þar skiptir mestu máli hver fór í hvaða veislu og með hverjum. Við getum hins vegar snúið þessari þróun við ef við viljum. Við getum snúið baki við pólitískum lukkuriddurum sem drekka kokteila og svara með frösum. Við getum krafist ábyrgðar og athafna og upplýsinga. Við getum kosið alvöru stjórnmálamenn sem selja ekki sannfæringu sína fyrir atkvæði!

–Og þannig erum við, Vinstri græn. Við stundum ekki yfirborðskennda Séð og heyrt pólitík. Við viljum raunverulegar umbætur og meira lýðræði.

Við eigum að nota pólitíkina til góðs. Við eigum að nota hana sem umbótartæki, við eigum að nota hana til að bylta og við eigum að nota hana til þess að breyta. En til þess þarf fólk að taka þátt í pólitík. Og því fleiri því betra. Og fólk þarf ekki endilega að ganga í stjórnmálaflokka til þess – það á að gera haft áhrif á samfélagið og tekið þátt í ákvörðunum og stefnumótun, ekki bara á fjögurra ára fresti heldur alla daga.

Börnin, fullorðnir, samfélagið og listin.

Börnin, fullorðnir, samfélagið og listin.

Það er sagt að börnin okkar séu betri útgáfa af okkur sjálfum. Nú á ég sjálf fjögur börn og ég get staðfest að þetta er hárrétt. En við vitum hins vegar aldrei hvernig börn við fáum. Börn eru eins og fræ og enginn veit hvernig blóm þau verða fyrr en þau eru fullsprottin.

Verkefni okkar fullorðna fólksins er að hlúa að þeim, gæta þess að þau fái frjóan jarðveg og næga næringu.

Og þannig má horfa á samfélagið – það er jarðvegur okkar allra. Og alveg eins og börnin eru betri útgáfa af okkur viljum við að þau búi í samfélagi sem við höfum bætt handa þeim. Þess vegna þurfum við að vanda okkur. Þótt margt sé gott í Reykjavík er líka margt ógert. Það má vel vera að peningar séu hreyfiafl hlutanna en það þarf að velja vel hvaða hluti á að hreyfa og hvers vegna og fyrir hverja. Besta hreyfiaflið er hins vegar við sjálf. Það erum við sem látum hlutina gerast.

Ég vil vera hluti af þessu hreyfiafli – með ykkur og í þágu okkar allra.

 

 

frambjodendur

Frambjóðendur í 1. sætið. Sóley, Grímur og ég. Myndina tók Golli fyrir mbl.is og hef ég linkað á fréttina með myndinni.

Comments

comments

This entry was posted in Pólitík and tagged , , , , , . Bookmark the permalink. Both comments and trackbacks are currently closed.